Fróðleikur

Í andrúmsloftinu er of mikið kolefni.

Kolefniseining

Binding kolefnis í trjám felur í sér að trén vaxa með tilstilli ljóstillífunar. Byggingarefni trjánna er að megninu til kolefni og vatn. Þegar tré stækka má mæla gildleika og hæð trjánna. Þær mælingar segja til um magn kolefnis sem bundist hefur í trjábolnum. Kolefniseining er fasti sem útleggst bæði sem þyngdareiningin „tonn af kolefni“ og rúmmálseiningin „rúmmeter af kolefni“. Þar sem lifandi tré inniheldur álíka mikið vatn og kolefni þarf að reikna frá vatnsinnihald til að fá rétt magn kolefnis. Kolefniseiningu má nota í viðskiptum, líkt og gjaldmiðil. Í nútímaþjóðfélagi þykir ekki boðlegt að menga andrúmsloftið en á sama tíma viljum við ekki breyta neyslumynsti okkar. Til að mengun sé réttlætanleg þarf að koma eitthvað í staðin fyrir mengunina, þ.e. mótvægi. Til að gera mengun kolefnishlutlausa þarf að koma til kolefnisjöfnun. Til að jafna út kolefnisneyslu/ kolefnislosun þurfa að eiga sér stað kolefniskaup/kolefnisbinding. Grunnur kolefnisviðskipta gengur út á að þeir sem losa/menga þurfa að kaupa kolefniseiningar af þeim sem hafa bundið kolefni.

Kolefnisbrúin vill sjá slík viðskipti gerast fyrir opnum tjöldum til að tryggja að rétt sé að verki staðið.

Verkefni

Að framleiða kolefniseiningar krefst landsvæðis og aðferðar. Þegar landeigandi hefur ákveðið þetta tvennt má í framhaldinu tala um verkefni en það snýst um búið sé að ákveða notkunana á landinu með tilliti til vottunarhæfs kröfusetts. Það getur t.d. verið kröfusett hjá Skógarkolefni, sem er vottunarhæft í Loftslagsskrá. 

Kolefnisbrúin undirbýr og heldur utan um verkefni í samvinnu við bændur.

Markaður kolefniseininga

Þegar kolefniseining er notuð til móts við losun er ekki hægt að versla frekar með þá tilteknu einingu. Það er áskorun að koma í veg fyrir misnotkun á markaðnum. Passa þarf upp á að kolefniseining sé ekki tvítalin. Þegar skógur er mældur og innihaldsstaða bundins kolefnis í skóginum kunngerð má gefa út kolefniseiningu. Trén halda áfram að vaxa og hægt er að selja viðbótar vöxt af sömu trjánum þegar þau eru mæld aftur, nokkrum árum síðar. Þannig má framleiða jafnt og þétt úr sama skóginum á meðan hann vex og bindur kolefni. Markaður með kolefniseiningar er orðinn nokkuð stór á heimsvísu. Ýmsir hafa innleitt aðferðafræði til að tryggja öruggt eftirlit með framleiðslu og sölu kolefniseininga. Reynsla mannkynssögunnar sýnir að áreiðanleiki verður aldrei fullreyndur á meðan mannshöndin á í hlut. Því er reynt að sannreyna sem flest í framleiðsluferli eininganna og er það gert með rannsóknum og upplýsingu. Sú aðferð sem er ábyggilegustu og heiðarlegustu við framleiðsluna ætti að vera áreiðanlegasti kosturinn til að fá staðfestingu.

Kolefnisbrúin vill styðjast við aðferðarfæði sem er bæði örugg og skiljanleg.

Kolefniseining í bið

Kolefniseining er ávísun á kolefni sem er bundið í tré. Slík eining er vottuð og því gjaldgeng í viðskipti eftir þeim staðli sem vottað er eftir. Kolefniseining verður ekki til fyrr en trén hafa sannað sig og skógur hefur vaxið og helst manni yfir höfuð. Eftirspurn eftir væntum kolefniseiningum hefur myndast. Þær einingar ganga undir nafninu “Kolefniseiningar í bið”. Hægt er að gefa slíka einingar út þegar öll formsatriði eru klár og land er tilbúið. Slíkar einingar fyrir land, sem er ógróðursett, eru til  en æskilegra er að gróðursetningu sé lokið. Á meðan bið eftir raunverulegum vottuðum einingum stendur yfir má eiga viðskipti með kolefniseiningar í bið. Þetta er einskonar forkaupsréttur á raunverulegum kolefniseiningum. Þessar einingar eru yfirleitt á mun lægra verði en raunverulegar kolefniseiningar. Þær geta verið sniðugt að selja t.d. þegar fjármögnun á stofnkostnaði stendur yfir. 

Kolefnisbrúin mun vinna með kolefniseiningar í bið til jafns við raunverulegar kolefniseiningar. 

Vottun

Það er eins og ekki sé nóg að vera heiðarleg og góð mannvera; maður þarf víst að hafa gott orðspor. Aðferðir við að sanna og staðfesta áreiðanleika kolefnisbindingar og sölu er snúið verk. Þess vegna eru fundnir upp til staðlar. Staðlar eru eins og boðorð eða umferðarreglur; ef allir fylgja þeim þá ætti lífið að ganga sinn vanagang. Til að tryggja að farið sé eftir stöðlunum þarf eftirlit. Eftirlitið sér um að skrá allt sem mælanlegt er samkvæmt viðkomandi staðli og loks er einhver, sem er samþykktur sem „áreiðanlegri en annar“ fenginn til að lesa yfir gögnin til að staðfesta að allt hafi veirð unnið samkvæmt stöðlunum. Hönd mannanna virðist alltaf koma við sögu. Margir staðlar leggja upp með mörg atriði í eftirliti sínu. Hugmyndin er mjög af hinu góða en það liggur samt í augum uppi að slíkir staðar verða annað hvort fokdýrir vegna aukins sérhæfðs vinnuafls og búnaðar eða óáreiðanlegir vegna flækjustiga, nema hvorutveggja sé. Því er mikilvægt að ferlið verði sem opnast og rekjanlegast. Ef upp kemur ágreiningur eða skekkja er mikilvægt að hægt sé að greina hvað fór úrskeiðis. Það liggur því við að segja að því auðlesanlegri sem staðlarnir verða því áreiðanlegri eru þeir.

Kolefnisbrúin vill vinna eftir traustum en auðveldum stöðlum sem um ríkir samstaða.

Skógarkolefni

Skógræktin, áður Skógrækt ríkisins, hefur haft vakandi auga fyrir framvindu kolefnismarkaða undanfarin ár. Í Bretlandi hófst markaður með kaup og sölu kolefniseininga fyrir rúmum áratug eða svo. Fyrir tilstilli Skógræktarinnar er nú kominn íslenskur staðall fyrir framleiðslu söluhæfra kolefniseininga á bæði innlendum og erlendum mörkuðum. Skógarkolefni er íslenskuð útgáfa af breska staðlinum; Brittish Carbon Units. Að sögn skipuleggjenda hjá Skógræktinni hefur Skógarkolefni fengið lof erlendis frá og vakið áhuga erlendra frjárfesta á nýskógrækt á Íslandi. Á heimasíðu Skógarkolefnis eru gagnlegar upplýsingar. Vissulega má véfengja alla afspurn um lof og last en þó er margt sem bendir til að staðall Skógarkolefnis verði einn sá áreiðanlegasti á heimsvísu. Ástæðan er einföld; Stöðugur en stuttur uppgangur skógaræktar Íslendinga.

Kolefnisbrúin ætlar að vinna náið með Skógræktinni og nota Skógarkolefni sem staðal.

Loftslagsskrá

Loftslagsskrá er rafrænn skráningagrunnur fyrir loftslagsverfni. Þeir sem skrá loftslagsverkefni og gefa út kolefniseiningar þurfa að uppfylla ítarlegar kröfur í samræmi við alþjóðlegar meginreglur til loftslagsverkefna. Loftslagsskrá er ekki aðeins fyrir íslensk loftslagsverkefni heldur loftslagsverkefni um allan heim.

https://carbonregistry.com/loftslagsskra/

Kolefnisbrúin er með reikning í Loftslagsskrá. 

Bændaskógrækt

Frá 1990 hefur verið stunduð skipulögð skógrækt á bújörðum með aðkomu ríkisins. Með landshlutabundnum skógarækarverkefnum studdi ríkið við skógrækt bænda með fjárframlögum í því skyni að búa til gjöfula skógarauðlind á Íslandi og auka á atvinnutækifærin í sveitum landsins. Samningurinn milli ríkis og bænda hljóðaði upp á að skógarbændur myndu rækta skóg og eiga hann með öllu án kvaða um endurgreiðslu. Þessir skógar eru margir hverjir þegar farnir að gefa af sér timbur. Þeir binda einnig kolefni. Ekki hefur verið gerður staðall um söluhæfar kolefniseiningar úr eldri skógum. Ólíklegt er að svo verði. Þó segir einhversstaðar að „það má selja allt, ef einhver vill kaupa“.

Kolefnisbrúin vill sjá sanngjarna þóknun fyrir bændur sem binda kolefni í skógum sínum. Kolefni sem talið er fram í kolefnisbókhaldi Íslands.

Landssamtök skógareigenda

Landssamtök skógareigenda (LSE) voru stofnuð 1997. Málefni kolefnisbindingar með skógrækt voru iðulega rædd meðal félagsmanna og stjórna LSE. Margar bókanir þess efnis er hægt að lesa í aðalfundargerðum samtakanna skogarbondi.is. Umræðan um raunverulega aðgerð í loftslagsmálum með skógrækt er því ekki ný meðal skógarbænda. Víða um heim hefur þessi umræða farið hátt og það um langa hríð. Líkt og gjarnan virðist vera í íslenskrum stjórnmálum þá ratar umræðan ekki á rétta staði. Það er kannski ekki skrítið því viðfangsefnið er flókið og umfangsmikið; spannar allt frá möttli jarðar og upp í himinhvofið. Það er líklega þess vegna sem Íslendingar eru fyrst núna, á þriðja áratug tuttugustu og fyrstu aldar, að átta sig á ástandinu. Tækifærin eru álíka spennandi eins og ógnaninar eru skelfilegar.

Það hefur lengi legið í loftinu að skógarbændur myndu gera eitthvað í málunum og þar kemur Kolefnisbrúin við sögu.

Bændasamtök Íslands

Það er hagur íslendinga að vita af öruggri matvælaframleiðslu í landinu. Það er hagur bænda að vita að vörur afurðir þeirra séu vel metnar. Bændasamtökin er hagsmunasamtök fyrir bændur. Það sem er ávinningur fyrir bændur er hagur fyrir Bændasamtökin. Loftslagsmál kemur okkur öllum við. Land má nýta með ýmsum hætti og yfir aldirnar hefur stór hluti lands verið nýttur til matvælaframleiðslu. Bændur geta laggt sitt land til loftslagsmála án þess að bitni á matvælaframleiðslu, heldur þvert á móti í tilfelli skógræktar. Aðrar aðgerðir eru til úrbóta og í tilfelli kolefnisbindingar má þar nefna bætta nýtingu jarðvegs með aukinni uppskeru og á það við um margt annað en matvæli, svo sem fóður og olíu. 

bondi.is

Bændur geta láti til sín taka í loftslagsaðgerðum og þar kemur Kolefnisbrúin við sögu.

Tilkoma Kolefnisbrúar

Helsti þröskuldur við nýskógrækt er kostnaður. Undirbúningur tekur tíma og sérhæfðrar þekkingar. Svo þarf mannafla, tæki og tól við að koma skóginum upp. Til að undirgangast staðla Skógarkolefnis þarf litlu við undirbúninginn að bæta en það sem áður hefur tíðkast en til viðbótar þarf að fylgjast vel með framvindunni, mæla vöxt trjánna, votta og loks koma kolefniseiningunum á markað. Þetta er ferli sem er ekki á færi allra. Skógræktin hefur rutt brautina til þessa og nú eru þáttaskil þar sem aðrir þurfa að taka við keflinu. Það er þess vegna sem Kolefnisbrúin var stofnsett. Í áratugi hefur kolefnisbinding verið hagsmunamál skógarbænda og í samvinnu við Bændasamtök Íslands er lagður enn meiri þungi á að gæta hagsmuna bænda sem hyggjast framleiða kolefniseiningar með skógrækt. Kolefnisbrúin er í eigu Landssamtaka skógarbænda og Bændasamtaka Íslands.

Helsta verkefni Kolefnisbrúarinnar er að vera málsvari bænda í kolefnisbindingu, gæta hagsmuna þeirra og styðja í verki við framleiðslu heiðarlegra kolefniseininga.

Framkvæmdin

Í samráði við bændur undirbýr Kolefnisbrúin ferlið við að kom upp skógi í þeim megin tilgangi að binda kolefni sem verður vottað eftir aðferðafræði Skógarkolefnis.

Fyrst er land metið með tilliti til mögulegrar bindingar. Það þýðir að gera þarf ræktunaráætlun fyrir svæðið. Í áætluninni kemur meðal annars fram hvaða trjátegund hentar í hvaða landgerð og áætlað hve vel þær munu vaxa. Landið yrði svo gróðursett. Nokkrum árum síðar er vöxtur ungu trjánna skoðaður og mældur. Ef allt gengur samkvæmt áætlun má votta mælingarnar og selja það kolefni sem bundið er í trjábolunum. Ein kolefniseining er skilgreind sem eitt tonn af kolefni í föstu formi. Líkt og peningur er hver útgefin kolefniseining eins og ávísun á bundið kolefni í tilteknum skógi.

Kolefnisbrúin vill aðstoða bændur við ferlið.

Sjálfbær landbúnaður

Matur er mannréttindi og standa þarf vörð um íslenskan landbúnað. Með því er átt að lífsnauðsynlegt er að framboð sé alltaf nægt á ræktarlandi til fæðu- eða matvælaframleiðslu. Það er mikið öryggisatriði að matvælaframleiðsla sé sem fjöbreyttust og fari fram sem víðast um landið. Matvælaöryggi skal haft í öndvegi en landbúnaður er meira en það. Hann er líka heilbrigðismál, byggðamál, náttúrumál og atvinnumál. Markmið Kolefnisbrúarinnar er að stuðla að sjálfbærni í landbúnaði og að almenningur lifi eftir sjálfbærum hugmyndum. Til að ná markmiðum sjálfbærni er skógrækt lykil verkfæri og til að byggja upp sterkari sveitir þarf sem allra mest af fjárhagslegum ávinnigi kolefnisbindingar að skila sér aftur til baka í sveitirnar.

Forgangur

Þeir bændur sem eru ábúendur á jörðum sínum, stunda landbúnað í sátt við náttúruna með matvælaframleiðslu sem megin tekjustreymi á búið eru í forgangi þegar kemur að afgreiðslu. Þeir eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands. Ef bændur eru viljugir og hafa í hyggju að opna skógræktarland sitt fyrir almenningi, hvernig sem það er útfært, eru þeir höfðingjar heim að sækja. Ef þeir vilja leggja upp með að halda uppi fjölbreyttum vistgerðum í landi sínu eru þeir með hag náttúrunnar fyrir brjósti. Svona bændur væru í algerum forgangi hjá Kolefnisbrúnni og best væri ef gert yrði umbunarkerfi svo slíkt umhverfi yrði eftirsóknarvert að vinna að.

Framtíðin

Skógrækt hefur sannað sig á Íslandi. Þeir vaxa jafn vel og skógar á sömu breiddargráðu hjá nágrannaþjóðum okkar. Skógarauðlindin býður fjölbreyttan ávöxt. Segja má að skógur sé forsenda sjálfbærs lands því land með skógi gefur stöðugt og meira af sér en land án hans. Hér er átt við að skógur gefur skjól fyrir aðrar lífverur; bæði í skógarbotni sem og í nágrenni við hann. Í skjóli trjáa má betur rækta. Kolefnisbrúin á sér þá sýn að bændur framtíðarinnar rækti matvöru í skjóli skóga og búi þannig betur undir öryggi fæðu á Íslandi. Timburiðnaður mun einnig dafna og munu sveitir landsins njóta góðs af því í formi búsældarlegs landslags og fjölbreyttrar byggðar á ársgrundvelli um land allt. Nú þegar hafa Íslendingar fengið nasaþef af framtíðinni í formi viðarvinnslu, beitarskóga og annarra afurða úr skóginum.

Alþjóðlegt

Þegar rætt erum um vottaðar kolefniseiningar skv. staðlinum Skógarkolefni heyrist oft kallað úti í horni: „En hvað með alþjóðlega vottun?“ Já, hvað með hana? Og þá verður fátt um svör, oftast bara „ja alþjóðleg vottun, það verður að vera alþjóðleg vottun; það dugar ekkert heimatilbúið!“ án þess þó að alþjóðleg vottun sé skilgreind nánar.

Gott er því að velta fyrir sér hvað sé „alþjóðlegt“ (e. international). Í grunninn er það þegar fleiri en eitt þjóðríki, ellegar fyrirtæki eða einstaklingar frá fleiri en einu þjóðríki, eiga í samvinnu eða samskiptum á einhvern hátt. Alþjóðleg vottun væri samkvæmt því vottun sem aðilar frá fleiri en einu þjóðríki stæðu að. Engu að síður er það svo, að engin vottun á kolefniseiningum er til á hinum frjálsa kolefnismarkaði í heiminum, sem aðilar frá fleiri en einu þjóðríki standa að.

Skoðum þetta betur. Vissulega varð það sem kallast Clean Development Mechanism (CDM) til undir Kyoto-bókuninni og er á margan hátt undirstaða hins frjálsa kolefnismarkaðar. CDM er kerfi á vegum Sameinuðu þjóðanna sem gerir löndum kleift að fjármagna í öðrum löndum verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og nýta hina minnkuðu losun sem hluta af aðgerðum til að uppfylla eigin skuldbindingar. Undir CDM urðu til grunnreglur (e. carbon principles) sem nánast allir staðlar á frjálsa markaðinum hafa tekið sig saman um að vinna eftir. Þessar grunnreglur eru nánast eins í öllum kolefnisstöðlum sem starfa á frjálsum kolefnismörkuðum. Grunnreglurnar má því kalla alþjóðlegar þó að vottunarkerfin sem byggð eru á þeim eigi hvert sitt heimaland.

Hverjar eru þá þessar grunnreglur? Fyrst er hægt að nefna þrjár meginreglur:

  1. Viðbót (additionality). Verkefni er „viðbót“ ef það og aðgerðirnar sem því tilheyra eru ekki áskildar í lögum og hefðu ekki verið mögulegar án fjármögnunar kolefnismarkaða.
  2. Varanleiki (permanence). Spurningin um hversu lengi koldíoxíð sem tekið hefur verið úr andrúmsloftinu er geymt í skógi eða á einhvern annan hátt. Er skilgreindur. Ekki óendanlegur.
  3. Leki (leakage). Losun koldíoxíðs sem tilheyrir ekki bókhaldi viðkomandi verkefnis en verður þó til af völdum þess. Dæmi um þetta getur verið landbúnaðarstarfsemi sem færð er frá einum stað til annars og veldur þar skógareyðingu eða þyngri nytjum á skóglausu landi. Verkefnið veldur því losun annars staðar.

Svo eru fjórar aðrar reglur sem ICROA (International Carbon Reduction and Offset Alliance), samtök hagsmunaaðila á kolefnismörkuðum sem ítrekað er vísað til, hefur innleitt í sínar kröfur:

  1. Mælanleiki (measurable). Skýr aðferðafræði um vöktun og mælingar.
  2. Gagnsæi (transparency). Aðgengilegar upplýsingar almennings um mælingar og aðferðafræði.
  3. Úttekt (audit). Verkefni og árangur þess tekinn út og staðfestur af óháðum vottunaraðila.
  4. Skráð (registered). Kolefniseiningar eru gefnar út og skráðar í miðlæga rafræna skrá.

Hvernig uppfyllir þá Skógarkolefni þessar grunnreglur og stenst Skógarkolefni alþjóðlegan samanburð?

Í fyrsta lagi er öll nýskógrækt undir Skógarkolefni „viðbót“ þar sem þau verkefni hefðu ekki orðið að veruleika ef ekki væri fyrir Skógarkolefni og fjármögnun einkaaðila. Í öðru lagi er „varanleiki“ vel skilgreindur í Skógarkolefni. Samningstími verkefna er 50 ár og eftir það er hægt að semja um áframhald verkefnisins. Að öðrum kosti gilda landslög og reglur um meðferð skóga. Í þriðja lagi er áhættan á „kolefnisleka“ hverfandi á Íslandi þar sem nánast hvergi er þröngt um landnotkun. Ólíklegt er t.d. að nýskógræktarverkefni á Íslandi leiði til skógareyðingar annars staðar. Engu að síður er tekið á leka í staðlinum.

Í fjórða lagi er aðferðafræðin á bak við Skógarkolefni byggð á mælingum og gögnum sem rannsóknasvið Skógræktarinnar hefur í aldarfjórðung safnað og skilað til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Þá er Skógarkolefni byggt á UK Woodland Carbon Code sem er breskur staðall, aðlagaður íslenskum lögum og reglum. Í fimmta lagi eru öll gögn, upplýsingar, vottanir og mælingar varðandi verkefni undir Skógarkolefni birt í Loftslagsskrá Íslands þegar verkefni hefur verið staðfest (e. validated).

Skógræktin vinnur nú að nýjum vef, www.skogarkolefni.is, sem fer í loftið í apríl. Þar verður ný uppfærsla á Skógarkolefni (útgáfa 2.0) ásamt ítarefni. Skógarkolefni verður þar aðlagað nýrri tækniforskrift Staðlaráðs um kolefnisjöfnun, ofan á hina alþjóðlegu staðla ISO 14064-1 og -2. Í sjötta lagi gerir Skógarkolefni þá kröfu að verkefni séu vottuð af óháðum þriðja aðila. Í sjöunda lagi eru öll verkefni og allar kolefniseiningar undir Skógarkolefni gefnar út í Loftslagsskrá Íslands. Skráin tryggir að kolefniseiningar séu einkvæmar, framseljanlegar og tvítalning því fyrirbyggð.

Skógarkolefni er íslenskur staðall byggður á alþjóðlegum grunnreglum og gæðastöðlum. Eitt svar við spurningunni, hvað er alþjóðlegt?, getur því hæglega verið: „Skógarkolefni“.


Höfundur er fjármálastjóri Skógræktarinnar og skóghagfræðingur.
Pistill var fyrst birtur á Heimildin 24.apríl 2023
 

Viltu í skógrækt

Komdu í samstarf með okkur í skógrækt...

Ég hef áhugaég vil vita meira